Hvatningarverðlaun ÖBÍ

Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.

Verðlaunin eiga að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu í málaflokknum og skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk. Þau eiga að vera hvatning til að gera enn betur til innleiðingar á samfélagi sem endurspeglar einkunnarorð ÖBÍ, eitt samfélag fyrir alla. Verðlaunin eru veitt ár hvert á alþjóðadegi fatlaðra, 3. desember. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2007. Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, er verndari verðlaunanna.

Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum; einstaklings, fyrirtækis eða stofnunar, umfjöllunar eða kynningu og verkefni innan aðildarfélaga ÖBÍ.

3. desember síðastliðinn voru verðlaunin veitt. Í flokknum, Tilnefningar aðildarfélaga ÖBÍ var Þjónustumiðstöð Sjálfsbjargar tilnefnd. Í greinargerð kom fram eftirfarandi: „Fyrir einstaklingsmiðaða þjónustu sem veitt er þar sem hennar er þörf, hvort sem er í þjónustumiðstöðinni eða úti í samfélaginu, t.d. á heimili viðkomandi. Frábært starfsfólk sem vinnur gott starf og sýnir virðingu og tillitssemi.“

Það er sérstaklega ánægjulegt að hljóta slíka tilnefningu og verðskuldað að mínu mati. Vil ég fyrir hönd stjórnar Sjálfsbjargarheimilisins þakka starfsmönnum Þjónustumiðstöðvarinnar vel unnin störf í þágu notenda í Þjónustumiðstöð.

Tryggvi Friðjónsson framkvæmdastjóri Sjálfsbjargarheimilisins

Comments are closed