Nýr framkvæmdastjóri tekur til starfa

Þórdís Rún Þórisdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Sjálfsbjargarheimilisins frá 1. október 2019. Þórdís hefur sinnt starfi skrifstofustjóra Sjálfsbjargarheimilisins og jafnframt verið staðgengill framkvæmdastjóra frá því í apríl 2017. Þórdís tekur hún við af Tryggva Friðjónssyni er gegnt hefur starfinu samfellt frá því í septembermánuði 1989.

Þórdís lauk BA próf frá Háskóla Íslands í félagsfræði árið 2008 og lagði þar áherslu á atvinnulífsfræði, aðferðafræði og afbrotafræði. Hún lauk MA próf í félagsfræði frá sama skóla árið 2013. Í meistaranáminu lagði hún áfram áherslu á aðferðarfræði og atvinnulífsfræði ásamt því að nema lýðfræði og kynjafræði.

Þórdís starfaði áður sem skrifstofustjóri hjá Thorice og sem verkefna- og teymisstjóri hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þar áður starfaði hún m.a. hjá Háskóla Íslands í samstarfsverkefni háskólans og KPMG um kortlagningu á lykilatriðum stjórnarmanna og störf stjórna á Íslandi. Hjá Ríkislögreglustjóra við greiningu á afbrotatölfræði og hjá Sjóvá sem tryggingarráðgjafi, verkefnastjóri og gæðastjóri.

Á meðan Þórdís stundaði háskólanám vann hún ýmis störf á sumrin og þá meðal annars sem leiðbeinandi hjá Vinnuskólanum, hjá Félagsfræðingafélagi Íslands, VBS fjárfestingarbanka og hjá Fangelsismálastofnun.

Þórdís hefur í gegnum tíðina setið fjölda námskeiða sem tengjast stjórnun.

Um leið og Tryggva eru þökkuð giftudrjúg störf í þágu Sjálfsbjargarheimilisins og Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra er Þórdís boðin velkomin til starfa og henni óskað velfarnaðar í störfum sínum í þágu Sjálfsbjargarheimilisins.

Bergur Þorri Benjamínsson formaður
Jón Heiðar Jónsson varaformaður

Comments are closed